Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru, dags. 22. janúar 2016 og athugasemda við starfshætti

Reykjavík 20. apríl 2016
Tilv.: FJR16010104/16.2.0

Efni: Úrskurður vegna stjórnsýslukæru, dags. 22. janúar 2016 og athugasemda við starfshætti[V].

Ráðuneytið vísar til bréfs, dags. 22. janúar 2016. Ráðuneytið lítur svo á að með bréfinu séu kærðar ákvarðanir stjórnar [V], dags. 19. janúar 2016, 21. desember 2015 og 5. nóvember 2015. Þá lítur ráðuneytið svo á að gerðar séu athugasemdir við starfshætti [V] og að kærandi telji sig ekki hafa fengið svar vegna fyrirspurnar um útreikning á tjónauppgjöri.

Málavextir og málsástæður.
Mál þetta snýst um greiðslu bóta til kæranda vegna tjóns sem varð á fasteign hans að [X] í Hveragerði í jarðskálftanum á Suðurlandi 29. maí 2008.

Stjórnsýslukæra, dags. 22. janúar 2016.
Í kærunni kemur fram að kærandi telur að Viðlagatrygging Íslands hafi ítrekað vikist undan því að svara úrlausnarefnum sem hann hafi leitað svara við. Það sé því um brot að ræða á skýrleikareglu og svarreglu stjórnsýsluréttar auk rannsóknarreglu. Þá telur kærandi að nauðsynlegt sé að fá skýr svör við ákveðnum álitaefnum sem Viðlagatrygging hafi komið sér undan að svara. Um sé að ræða útskýringar á útreikningum tjónauppgjörs, þ.e.a.s. hvernig staðið sé að vaxtaútreikningi, tímabil vaxtaútreiknings og vaxtaprósentu. Einnig kemur fram að virðisaukaskattur sé dreginn frá tjónabótum á óútskýrðan hátt. Ennfremur gerir kærandi athugasemdir við það að útreikningarnir hafi verið gerðir af [A] starfsmanni hjá [V] sem hafi síðan svarað öllum fyrirspurnum kæranda.

Kærandi telur útreikningana ranga og óskýra og því sé ómögulegt að andmæla þeim. Til dæmis vegna þess að ekki komi fram hvaða vaxtaprósenta er notuð. Þá komi grunnfjárhæð útreikningsins ekki fram né hvert vaxtatímabilið sé. Vegna þessa muni úrskurðarnefndin ekki geta lagt mat á ákvarðanir stjórnar Viðlagatryggingar Íslands og kærandi geti ekki kært málið til úrskurðarnefndar nema hann hafi þessar upplýsingar.

Með kærunni bárust gögn sem upplýsa eftirfarandi:
Bréf frá [V] til kæranda, dags. 2. október 2015,
þar sem fram kemur að kostnaðarmat hafi verið leiðrétt vegna[X].

Bréf kæranda til stjórnar [V], dags. 22. október 2015,
þar sem kærandi óskar svara við spurningum vegna úrskurðar stjórnar nr. 3/2014, dags. 15. október 2015. Einnig óskar kærandi eftir því að stjórnin endurupptaki úrskurðinn.

Bréf kæranda til stjórnar Viðlagatryggingar, dags. 29. október 2015,
þar sem óskað er eftir skýringum á greiðslu að fjárhæð kr. 1.343.044 þann 27. október 2015.

Bréf [V] til kæranda, dags. 30. október 2015,
þar sem fram kemur að [V] hafi sent kæranda bréf um greiðslu tjónabóta, dags. 29. október 2015 og að tjónabæturnar séu reiknaðar út í samræmi við úrskurðarorð úrskurð stjórnar [V], nr. 3/2014, dags. 15. október 2015 ásamt sundurliðun.

Bréf [V] til kæranda, dags. 5. nóvember 2015,
með bókun stjórnar vegna máls nr. 3/2014. Í bókunni kemur fram að það sé álit stjórnar [V] að málið verði ekki rekið fyrir tveimur stjórnsýslustigum samtímis og með vísan til þess er kæranda bent á að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar.

Bréf [V] til kæranda, dags. 21. desember 2015,
með bókun stjórnar þar sem vísað er til bókunar, dags. 5. nóvember 2016.

Bréf kæranda til [V], dags. 7. desember 2015,
þar sem hann ítrekar þá kröfu að fasteign hans sé endurbyggð. Í bréfinu er vísað til þess að fyrir liggi þrjú dómkvödd möt og að það gæti talsverðs ósamræmis í þeim hvað kostnaðargreiningu varði.

Bréf kæranda til stjórnar [V], dags. 7. janúar 2016,
þar sem fram kemur að kærandi telur sig ekki hafa fengið efnisleg svör vegna erinda sem hann sendi stjórninni fyrir stjórnarfundi 3. nóvember 2015 og 18. desember 2015. Í bréfinu er einnig gerð athugasemd við tjónauppgjör sem gert var á grundvelli úrskurðar stjórnar, dags. 15. október 2015 og áréttað að stjórnin hafi ekki tekið afstöðu til dómkvadds yfirmats nr. M2-2012.

Bréf stjórnar [V] til kæranda, dags. 19. janúar 2016,
með bókun vegna máls nr. 3/2014. Í bókuninni er vísað til fyrri bókana og ítrekað að kærandi eigi að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar.

Eftirtalin gögn sendi kærandi ráðuneytinu eftir að því barst kæran í máli þessu:
Tölvupóstur, dags. 30. janúar 2016,með tveimur blaðagreinum úr Morgunblaðinu, tölvupóstur, dags. 3. febrúar 2016, með svari frá[B], lögmanni ásamt blaðagrein úr Morgunblaðinu 3. febrúar 2016, tölvupóstur, dags. 12, febrúar 2016,með afriti af kæru til úrskurðarnefndar um [V], dags. 9. febrúar 2015, vegna úrskurðar stjórnar Viðlagatryggingar Íslands stjórnar í máli nr. 3/2014, frá 15. október 2015, tölvupóstur, dags. 16. febrúar 2016, með blaðagrein sem birtist í Fréttablaðinu og vísi.is sama dag, tölvupóstur, dags. 16. febrúar 2016, með samskiptum kæranda við [A] lögfræðing hjá [V].

Umsögn stjórnar [V], dags. 6. apríl 2016.
Með bréfi, dags. 29. janúar 2016, óskaði ráðuneytið eftir umsögn stjórnar [V] vegna málsins. Umsögn stjórnar [V], dags. 6. apríl 2016, barst ráðuneytinu 7. apríl 2016. Í umsögninni kemur fram að stjórn [V] hafi falið framkvæmdastjóra að koma sjónarmiðum sem fram koma í umsögninni á framfæri. Til að gera grein fyrir afstöðu stjórnar til kröfugerðar kæranda er farið yfir aðdraganda málsins í umsögninni.

Aðdragandi málsins skv. umsögn stjórnar [V] og meðfylgjandi gögnum:
Með úrskurði úrskurðarnefndar nr. 1/2012, dags. 24. október 2014, var úrskurðað um kæru kæranda á úrskurði stjórnar [V] nr. 4/2011, dags. 10. janúar 2012. Í hinum kærða úrskurði lágu fyrir tjónamöt matsmanna sem kvaddir voru til af hálfu [V] til þess að meta tjón af völdum jarðskjálfta í maí 2008 á gamla íbúðarhúsinu að [X] í Hveragerði. Í úrskurðinum er fjallað um tjónamöt sem lágu fyrir í málinu af hálfu [V]. Einnig liggur fyrir í málinu dómkvatt mat frá kæranda skv. úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, sem framkvæmt var þrátt fyrir andmæli [V] um að það mætti fara fram með þeirri athugasemd að kærandi bæri sjálfur áhættuna af notagildi matsgerðar til sönnunar í eftirfarandi málarekstri, sem og kostnað af öflun hennar. Meðan á rekstri úrskurðarmálsins stóð tilkynnti kærandi að hann væri að ganga frá beiðni um yfirmat til Héraðsdóms Suðurlands. Úrskurðarnefndin féllst á ósk kæranda um að fresta málinu þar til niðurstaða yfirmats hefði borist. Yfirmatið barst 18. janúar 2013.

Úrskurður úrskurðarnefndar nr. 1/2012, dags. 24. október 2014.
Í úrskurði úrskurðarnefndar nr. 1/2012 er tekin afstaða til þeirra gagna sem aðilar byggðu kröfugerðir sínar á í málinu, þ.e. dómkvöddu matanna sem kærandi lagði fram og matsgerða Viðlagatryggingar Íslands. Í niðurstöðu úrskurðarins kemur fram að úrskurðarnefndin taldi ekki unnt að úrskurða í málinu á grundvelli dómkvöddu matanna. Varðandi möt [V] kemur fram í úrskurðinum að niðurstaða um bótafjárhæð verði ekki reist á þeim gögnum sem hinn kærði úrskurður byggi á. Í úrskurðinum var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt var fyrir stjórn Viðlagatryggingar Íslands að afla matsgerðar dómkvaddra manna um það hvaða tjón eign kæranda, gamla íbúðarhúsið að […] í […], varð fyrir við jarðskjálftann sem varð á Suðurlandi 29. maí 2008 og hvað kosti að gera við eignina svo hún verði eins eða því sem næst eins og fyrir jarðskjálftann.

Úrskurður stjórnar [V] nr. 3/2014, dags. 15. október 2015.
[V] dómkvaddi í framhaldinu matsmenn sem skiluðu mati 15. júlí 2015. Stjórn [V] úrskurðaði svo í málinu á grundvelli matsins 15. október 2015 með máli nr. 3/2014. Í niðurstöðu úrskurðarins kemur fram að það hafi legið fyrir í málinu að kærandi hafi notið andmælaréttar. Einnig kemur fram að það sé afstaða stjórnar [V] að beint tjón sem falli undir bótaskyldu [V] á íbúðarhúsinu að […] samkvæmt mati matsmanna, dags. 15. júlí 2015, teljist réttilega metið. Ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem breyti niðurstöðu matsins að þessu leyti. Stjórnin staðfesti því niðurstöðu dómkvadda matsins um greiðslu tjónabóta samkvæmt matinu og samkvæmt því skuli [V] greiða tjónþola kr.[…], að frá dregnum áður greiddum innborgunum og bótum, kr. 248.176og kr. 32.944, dags. 16. ágúst 2010, kr. […], dags. 25. mars 2011, kr. […], dags. 2. janúar 2014 og kr. […], dags. 18. ágúst 2015. Almennir vextir skuli vera hinir sömu og greiða beri skaðabætur samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Um dráttarvexti gildi reglur III. kafla þeirra laga. Með vísan til þessa er því hafnað að bæta beri húsið sem altjón, þ.e. á grundvelli vátryggingafjárhæðar eignarinnar. Þá kemur fram að stjórn [V] hafi ekki lagaheimild til að úrskurða um kröfu tjónþola á útlögðum kostnaði.

Bréf kæranda, dags. 19. október 2015.
Kærandi tilkynnir að hann sé búin að kæra úrskurð stjórnar til úrskurðarnefndar með tölvupósti til stjórnarformanns[V].

Kröfugerð kæranda dags, 22. október 2015.
Kærandi sendir kröfugerð til stjórnar þar sem krafist var svara um ákvörðun stjórnarinnar.

Erindi kæranda, dags. 29. október 2015.
Kærandi sendi [V] bréf, dags. 29. október 2015 þar sem hann óskar eftir skýringum á útgreiðslu tjónabótanna.

Skýring[V], dags. 30. október 2015.
[V] sendi kæranda skýringar varðandi bótauppgjörið með bréfi þar sem fram kom að bótauppgjörið sé byggt á úrskurði stjórnar í máli nr. 3/2014, að vextir hafi verið greiddir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, að vextir hafi miðast annars vegar við vexti sem greiða beri á skaðabætur skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands skv. lögum nr. 38/2001 og hins vegar við dráttarvexti skv. III. kafla laga nr. 38/2001 og ákvörðun Seðlabanka Íslands. Sundurliðuð vaxtaprósenta sé öllum aðgengileg á heimasíðu Seðlabanka Íslands.

Erindi kæranda, dags. 1. nóvember 2015.
Erindi barst frá kæranda til Viðlagatryggingar Íslands þar sem athugasemdir hafi verið ítrekaðar vegna bótauppgjörs [V] í kjölfar úrskurðar stjórnar, dags. 15. október 2015.

Bókun á stjórnarfundi[V], dags. 3. nóvember 2015.
Vegna erindis kæranda var bókun gerð á stjórnarfundi Viðlagatryggingar Íslands, dags. 3. nóvember 2015, þar sem fram kom að fyrir liggi að stjórn [V] hafi úrskurðað í málinu 15. október 2015 og að kærandi hafi kært málið til úrskurðarnefndar um Viðlagatryggingu Íslands skv. 19. gr. laga nr. 55/1992. Það hafi svo verið álit [V] að málið verði ekki fyrir tveimur stjórnsýslustigum samtímis og því var kæranda bent á að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar.

Kröfugerð kæranda til stjórnar, dags. 7. desember 2015.
Kærandi sendi aftur kröfugerð til stjórnar þar sem krafist hafi verið svara um ákvörðun stjórnarinnar.

Bókun stjórnar [V], dags. 18. desember 2015.
Stjórn [V] tók erindi kæranda, dags. 7. desember 2015, fyrir á stjórnarfundi 18. desember 2015. Í bókun var vísað til fyrri bókunar stjórnar þar sem kæranda var bent á að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar.

Kröfugerð kæranda til stjórnar, dags. 7. janúar 2016.
Kærandi sendi kröfugerð til stjórnar þar sem krafist var svara um ákvörðun stjórnarinnar.

Bókun stjórnar[V], dags. 15. janúar 2016.
Stjórn tók erindi kæranda, dags. 7. janúar 2016, fyrir á stjórnarfundi 15. janúar 2016. Í þeirri bókun kom fram að kærandi hafi notið andmælaréttar á öllum stigum málsins. Stjórn hafi úrskurðað í ágreiningi aðila í málinu og að kærandi hafi nýtt sér þá heimild að skjóta úrskurðinum til úrskurðarnefndar skv. 19. gr. laga nr. 55/1992. Í ljósi þessa hafi stjórnin vísað til fyrri bókana og kæranda verið leiðbeint um það að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar. Ekki hafi neitt nýtt komið fram sem breyti þessu áliti stjórnar.

Bókun stjórnar[V], dags. 26. febrúar 2016.
Vegna beiðni Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 29. janúar 2016, um umsögn vegna kæru kæranda var bókað á stjórnarfundi 26. febrúar 2016 að stjórn feli framkvæmdastjóra að undirbúa umsögn á grundvelli þeirra umræðna sem fram fóru um málið á fundinum og senda ráðuneytinu.

Þá kemur fram í umsögninni að kærandi hafi kært úrskurð stjórnar nr. 3/2015, dags. 15. október 2105 til úrskurðarnefndar og að úrskurðarnefndinni hafi borist tölvubréf frá kæranda, dags. 5. nóvember 2015, þar sem hann óski eftir því að bera undir úrskurðarnefndina afstöðu stjórnar [V] sem tekin var á fundi stjórnar þann 3. nóvember 2015.

Niðurstaða og forsendur umsagnar stjórnar[V], dags. 6. apríl 2016.
Í umsögn stjórnar [V] kemur fram að það liggi fyrir úrskurður stjórnar [V] nr. 3/2014, dags. 15. október 2015 vegna ágreinings kæranda og [V] varðandi tjón á fasteign kæranda í jarðskjálfta á Suðurlandi 29. maí 2008. Einnig liggi fyrir tölvupóstur frá kæranda til [V], dags. 19. október 2015, þar sem fram kemur að hann hafi kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar.

Eftir að kærandi hafi kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar hafi kærandi sent stjórn [V] kröfugerð, dags. 22. október 2015 og krafist svara. Stjórn hafi tekið málið fyrir á stjórnarfundi 3. nóvember 2015 og bókað að það væri álit stjórnar [V] að málið yrði ekki rekið fyrir tveimur stjórnsýslustigum samtímis og hafi leiðbeint kæranda með vísan til þess að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar. Ekki hafi verið talin þörf á að framsenda kröfugerðina til úrskurðarnefndar, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem legið hafi fyrir að kærandi var með lögmann sem fékk sent afrit af bókuninni.

Einnig kemur fram í umsögninni að það liggi fyrir í málinu bréf frá úrskurðarnefnd, dags. 15. febrúar 2016, þar sem fram kemur að kærandi hafi kært þessa bókun stjórnar til úrskurðarnefndar 5. nóvember 2015. Í kærumálsgögnum sem hafi fylgt bréfi úrskurðarnefndar komi fram að kærð sé sú afstaða stjórnar [V] að neita að taka málið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þess að kærandi hafi tilkynnt að hann ætlaði að kæra málið til úrskurðarnefndar. Stjórn [V] hafi ekki verið kunnugt um þessa kæru fyrr en með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2016.

Kærandi hafi aftur sent stjórn kröfugerð vegna málsins, dags. 7. desember 2015 og stjórn [V] hafi ítrekað afstöðu sína í fyrri bókun og bent tjónþola á að beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar. Kæranda hafi verið tilkynnt um bókunina með bréfi, dags. 21. desember 2015, og afrit hafi verið sent lögmanni hans.

Aftur hafi kærandi sent stjórn kröfugerð vegna málsins, dags. 7. janúar 2016 og stjórn [V] hafi ítrekað svör um að kærandi eigi beina kröfugerð sinni til úrskurðarnefndar. Stjórnin muni taka efnislega afstöðu til málsins þegar kærumálsgögn berist frá úrskurðarnefnd. Kæranda hafi verið tilkynnt um bókunina með bréfi, dags. 19. janúar 2016, og afrit sent á lögmann hans.

Þá kemur fram í umsögninni að varðandi kæru á ofangreindum bókunum stjórnar sé vísað til þess sem fram sé komið í málinu um aðdraganda þeirra, þar sem fyrir liggi að kærandi hafi verið búinn að kæra úrskurð stjórnar til úrskurðarnefndar þegar hann sendir stjórninni kröfugerðir sínar í málinu. Álit stjórnar sem fram kemur í bókununum sé ítrekað og kröfugerð kæranda um að stjórn sé skylt að svara kröfugerð kæranda efnislega á þessu stigi sé mótmælt, enda málið á forræði úrskurðarnefndar frá 21. október 2015, skv. tilkynningu frá úrskurðarnefnd, dags. 15. febrúar 2016. Með tilkynningunni hafi fylgt kærumálsgögn þar sem stjórn [V] var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu.

Í umsögninni er vísað til þess sem fram komi í greinargerð [V] til úrskurðarnefndar, dags. 30. mars 2016 í máli nr. 6/2015, þar sem fyrsta bókunin sé kærð og tekið fram að rökin eigi ekki síður við um bókanir stjórnar sem hafi komið í kjölfarið. Í bókuninni komi fram að samkvæmt endurriti fundargerðar hafi stjórnin litið svo á að öll erindi [kæranda] sem lögð voru fram á fundinum hafi varðað málefni sem stjórn hafði úrskurðað um í máli nr. 3/2014. Fjallað hafi verið efnislega um öll þessi málefni undir rekstri þess máls. Kærandi hafi kært þann úrskurð til úrskurðarnefndar og af þeirri ástæðu hafi verið rétt að hann kæmi þessum málefnum að við rekstur þess máls fyrir úrskurðarnefnd. Stjórnin hafi talið ljóst að eftir kæru [kæranda] á úrskurði stjórnar til úrskurðarnefndar hafi [kæranda] að svo stöddu ekki rétt á endurupptöku hins kærða úrskurðar hjá stjórn á grundvelli ákvæða 1. mgr. 24. gr. l. nr. 37/1993. Kæra úrskurðarins til úrskurðarnefndar og endurupptökukrafa úrskurðarins fyrir stjórn á sama tíma hafi verið ósamrýmanlegar. Afgreiðsla sama máls á tveimur eða fleiri stigum stjórnsýslunnar á sama tíma geti leitt til öndverðrar niðurstöðu viðkomandi stjórnvalda sem sé að sjálfsögðu ótækt.

Varðandi athugasemdir við starfshætti [V] er vísað til þess í umsögninni sem fram er komið í málinu um öll samskipti við kæranda. Erfitt sé að gera sér grein fyrir í hverju athugasemdir kæranda felast, en séu þær byggðar á afgreiðslu stjórnar á kröfugerð kæranda vegna úrskurðarnefnarmálsins, sem hann hafi beint til stjórnar í stað úrskurðarnefndar, þá sé því mótmælt að kærandi hafi ekki fengið skjóta afgreiðslu á þeim erindum, þar sem fyrir liggi að þau hafi verið afgreidd á næsta fundi stjórnar eftir að þau bárust. Að öðru leyti verði ekki séð að málsmeðferð né afgreiðsla stjórnar á erindum kæranda sé aðfinnsluverð og sé athugasemdum kæranda við starfshætti [V] mótmælt. Fyrir liggi að stjórn hafi sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda um að beina kröfugerð sinni í úrskurðarnefndarmálinu til úrskurðarnefndar sem hafi verið með forræði málsins. Ekki hafi verið talin þörf á að senda kröfugerðir kæranda til úrskurðarnefndar, skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess hafi legið fyrir að kærandi var með lögmann í málinu. Eins og fram sé komið hafi stjórn [V] borist kröfugerð kæranda frá úrskurðarnefnd vegna máls nr. 5/2015 og hafi nú þegar verið brugðist við henni með greinargerð til úrskurðarnefndar, dags. 30. mars 2016.

Varðandi athugasemdir kæranda við bótauppgjör [V] í kjölfar úrskurðar stjórnar nr. 3/2014, er tekið fram í umsögninni að í niðurstöðu úrskurðarins og úrskurðarorði hafi verið ítarlega gerð grein fyrir því með hvaða hætti bótauppgjörinu skyldi hagað. Á grundvelli þessa hafi bótauppgjörið farið fram. Í framhaldi af fyrirspurn frá kæranda hafi honum verið sent bréf, dags. 30. október 2015, þar sem gerð hafi verið sundurliðuð grein fyrir bótauppgjörinu. Tekið er fram að bótaútreikningurinn hafi byggt á vaxtaprósentu frá Seðlabanka Íslands og að uni kærandi ekki útreikningnum geti hann kært hann til úrskurðarnefndar. Uni kærandi ekki úrskurði úrskurðarnefndar geti hann stefnt málinu fyrir héraðsdóm.

Í lokaorðum umsagnarinnar kemur fram að fyrir liggi að tvö kærumál af sama meiði séu til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um [V], skv. 19. gr. laga nr. 55/1992. Annars vegar kærumál nr. 5/2015, þar sem kærður sé úrskurður stjórnar [V] í máli nr. 3/2014 og kærumál nr. 6/2015, þar sem kærð sé afgreiðsla stjórnar frá 3. nóvember 2015. Auk þess sé þetta stjórnsýslumál til meðferðar af sama meiði og ofangreind kærumál. Málið hafi verið á forræði úrskurðarnefndar frá 21. október 2015. Stjórn hafi nú þegar sent greinargerð til úrskurðarnefndar vegna kærumáls nr. 5/2016 þar sem brugðist sé við kærumálsgögnum kæranda. Í því máli fyrir úrskurðarnefnd hafi kærandi haft tækifæri til gera allar þær kröfur sem liggja fyrir í stjórnsýslukæru þeirri sem hér er til umfjöllunar.

Með vísan til alls þessa mótmælir stjórn [V] öllum málatilbúnaði kæranda í þessu stjórnsýslumáli og krefst þess að því verði vísað frá á grundvelli þessa og þess að ekkert sé fram komið sem réttlætir aðra málsmeðferð af hálfu [V] í málinu.

Forsendur og niðurstaða.
Í málinu liggur fyrir úrskurður stjórnar [V], nr. 3/2014, sem kveðinn var upp 15. október 2015. Samkvæmt úrskurðinum var [V] gert að greiða kæranda kr. 12.252.787. Að frádreginni þeirri fjárhæð skyldi vera lögbundin eigin áhætta. Bótafjárhæðin skyldi bera almenna vexti í mánuð frá og með 15. júlí 2015 og dráttarvexti frá þeim tíma til greiðsludags að frádregnum áður greiddum innborgunum og bótum, kr. 248.176 og kr. 32.944, dags. 16. ágúst 2010, kr. 3.000.000, dags. 25. mars. 2011, kr. 4.321.503, dags. 2. janúar 2014 og kr. 2.000.000, dags. 18. ágúst 2015 og almennum vöxtum miðað við innborgunardag til greiðsludags. [V] greiddi bætur samkvæmt úrskurðinum 27. október 2015 og tilkynnti kæranda um það með bréfi 29. október 2015.

Einnig liggur fyrir að kærandi hefur kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar skv. 19. gr. laga nr. 55/1992, sbr. tölvupóst kæranda til nefndarmanns í úrskurðarnefndinni, dags. 19. október 2015. Þá liggur fyrir í málinu að kærandi hefur óskað eftir endurupptöku málsins hjá stjórn [V], sbr. bréf hans, dags. 22. október 2015 og öðrum bréfum sem leiða má líkur til þess að verið sé að óska eftir endurupptöku. Jafnfram liggur fyrir að kærandi óskaði eftir svörum við ákveðnum spurningum varðandi úrskurðinn ásamt því að óska skýringa á útreikningi [V] á útgreiddum tjónabótum, sbr. bréf dags. 22. október 2015, 29. október 2015, 7. desember 2015 og 7. janúar 2016.

Krafa um frávísun frá stjórn [V].
Ráðuneytið telur ekki fram komnar nægilegar ástæður sem valda frávísun í máli þessu þar sem ákvarðanir stjórnar varðandi annað en greiðsluskyldu og fjárhæð tryggingabóta eru kæranlegar til ráðuneytisins sbr. meðal annars álit umboðsmanns í máli nr. 2487/1998 frá 17. desember 1999 þar sem fjallað er um stöðu stofnunarinnar, og tekur málið því til efnislegrar meðferðar.

Krafa um endurupptöku úrskurðar stjórnar [V] nr. 3/2014
Þegar málsaðili sættir sig ekki við ákvörðun stjórnvalds eða telur forsendur ekki réttar fyrir úrskurði getur hann valið á milli þess að óska eftir endurupptöku málsins eða að kæra ákvörðunina til æðra stjórnvalds, sbr. skýringarrit með stjórnsýslulögunum eftir Pál Hreinsson, útg. 1994, bls. 246. Í þessu máli hefur kærandi kært úrskurð stjórnar [V] og með vísan til þess tekur ráðuneytið undir með stjórn [V] að því hafi ekki verið heimilt að endurupptaka úrskurð sinn nr. 3/2014 sbr. bókun stjórnar, dags. 5. nóvember 2015, 21. desember 2015 og 19. janúar 2016. Þá telur ráðuneytið að stjórn Viðlagatryggingar hafi virt málshraðareglu stjórnsýsluréttar varðandi kröfu um endurupptöku þar sem bréf hafi verið tekin fyrir á næsta stjórnarfundi eftir að þau bárust.

Ósk um skýringar vegna útgreiðslu tjónabóta skv. úrskurði stjórnar [V] nr. 3/2014.
Samkvæmt ofangreindu kemur fram að kærandi óskaði eftir útskýringum á greiðslu tjónabóta sem greiddar voru 27. október 2015. [V] svaraði með bréfi, dags. 30. október 2015. Í því bréfi kemur fram bótafjárhæð að frádreginni eigin áhættu sé 15. júlí 2015 samkvæmt úrskurðinum kr. 11.640.148. Þá kemur fram að skaðabótavextir frá 15. júlí til 15. ágúst séu samkvæmt úrskurðinum kr. 39.140 og dráttarvextir frá 15. ágúst 2015 til 27. október 2015 séu samkvæmt úrskurðinum 310.161. Niðurstöðutalan er samkvæmt því 11.989.449 og að frádregnum innborgunum samkvæmt úrskurðinum að fjárhæð kr. 9.602.623 og skaðabótavöxtum samkvæmt úrskurðinum að fjárhæð kr. 1.043.901 séu til greiðslu kr. 1.342.925. Af síðari bréfum kæranda má ráða að honum hefur ekki verið ljóst hvernig Viðlagatrygging Íslands stóð að vaxtaútreikningi, hvorki vitað hver vaxtaprósentan var né fyrir hvaða tímabil vextir voru reiknaðir. Ráðuneytið telur sundurliðun [V] á tjónabótum, dags. 19. október 2015, ábótavant og ekki nægilega skýra. Ekki kemur fram hver er fjárhæð eigin áhættu né kemur fram hverjir eru skaðabótavextir samkvæmt úrskurðinum né tímabil vaxtanna. Þá er ekki ljóst í útskýringunum hvaða vextir felast í skaðabótaböxtum. Stjórn [V] tekur ekki afstöðu í bókunum sínum til þess hvort hún telji sundurliðanir tjónabóta nægjanlega skýrar. Með vísan til framangreinds beinir ráðuneytið því til [V] að senda kæranda nánari sundurliðun á útgreiðslu tjónabóta skv. úrskurði stjórnar [V] nr. 3/2014.

Kærandi telur óljóst hvort bréf til hans hafi komið frá stjórn [V] eða stofnunni sjálfri. Ráðuneytinu þykir sýnt að [A] hafi ritað bréf annars vegar fyrir hönd [V] þegar það átti við, þ.e. vegna útgreiðslu tjónabóta og hins vegar fyrir hönd stjórnar [V] þegar hann hafði umboð til þess. Hins vegar hefur láðst að rita á nokkur bréf að hann riti undir bréf fyrir hönd stjórnarinnar. Ráðuneytið telur það hins vegar ekki valda ruglingi í málinu en beinir því til [V] að gæta framvegis að formskilyrðum við undirritun bréfa. Þá er það ekki óeðlilegt að mati ráðuneytisins að sami starfsmaður svari fyrir útreikninga sem hann gerir fyrir hönd stofnunar.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi óskað svara við spurningum er varða mál hans eftir að ákvörðun stjórnar [V] lá fyrir. Kæranda ber að hafa andmælarétt við málsmeðferð stjórnsýslumáls áður en ákvörðun er tekin. Ekki virðist ágreiningur í þessu máli að kærandi hafi haft andmælarétt. Ráðuneytið bendir kæranda á að eftir að ákvörðun er tekin er einungis unnt að óska endurupptöku á ákvörðun eða kæra ákvörðunina en að öðru leyti ber stjórnvaldi ekki að útskýra ákvörðun sína frekar. Stjórn [V] bar því ekki að svara margítrekuðum spurningum kæranda um ákvörðunina.

Það er óskráð regla í stórnsýslurétti að ákvarðanir stjórnvalds skuli bæði vera ákveðnar og skýrar og stjórnvald skal gæta að leiðbeingarskyldu sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og rannsóknarreglu skv 10. gr. laganna. Ráðuneytið telur að bókanir stjórnar hefðu mátt vera skýrari og útskýra betur fyrir kæranda réttarstöðu hans þar sem bókanir og tilvitnanir til fyrri bókana skýrðu málið augljóslega ekki fyrir kæranda. Í þessu tilviki hefði mátt veita kæranda betri leiðbeiningar þar sem ávallt þarf að gæta að því að veita einstaklingsbundnar leiðbeiningar sé eftir þeim leitað eða þegar aðili hefur bersýnilega þörf fyrir þær. Ráðuneytið hefur ekki athugasemdir vegna rannsóknar skv. 10. gr. stjórnsýslulaganna.

Úrskurðarorð
Ákvarðanir stjórnar [V], dags. 5. nóvember 2015, 21. desember 2015 og 19. janúar 2016, um að hafna endurupptöku á máli nr. 3/2014 eru staðfestar.


Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum